Heim Fortíð Gunnar Gunnarsson

Gunnar Gunnarsson

1

Einn af merkari Íslendingum er Gunnar Gunnarsson rithöfundur. Gunnar fæddist í Fljótsdal að Valþjófsstöðum þann 18. maí 1889, sonur hjónanna Gunnars Gunnarssonar bónda og Katrínar Þórarinsdóttur. Þegar Gunnar var 7 ára þá fluttust þau að Ljótsstöðum í Vopnafirði en móðir hans dó svo ári síðar sem margir menn vilja meina að hafi haft áhrif á Gunnar sem rithöfund. Hann var ungur með þann draum að verða skáld og 1906 voru gefin út tvö ljóðakver sem hétu Vorljóð og Móðurminning. 18 ára hélt hann til náms í lýðháskólann í Askov í Danmörku þar sem hann einblíndi aðallega á tungumál og bókmenntir.

Gunnar ungur

Gunnar bjó í Árósum á tímabili við takmörkuð kjör en las og skrifaði sér til gagns. Hann skrifaði mest á dönsku þar sem að hann náði til stærri hóps lesenda. Hann var í kringum menn eins og Einar Jónsson og Jóhann Sigurjónsson en þeir voru miklir vinir. Gunnar aðstoðaði hann að þýða Fjalla-Eyvind. Hann kynnist konunni sinni Franziscu Antoniu Josephine Jørgensen frá Fredericia á Jótlandi og giftist henni 1912. Hún var dóttir járnsmiðs en móðir hennar var af þýskum aðalsættum en systir hennar, Anna, giftist Einari Jónssyni myndhöggvara. Gunnar og Franzisca eignuðust tvo syni Gunnar yngri 1914 og Úlf 1919. Gunnar eignaðist svo einn son með konu að nafni Ruth Lange og hét sá Grímur en þrátt fyrir það þá skildu Gunnar og Franzisca ekki.

Útgáfufyrirtækið Gyldendal samþykkti að gefa út skáldsögu eftir hann 1912 en Gunnar sló svo í gegn með Sögu Borgarættarinnar. Sú fékk gífurlegar vinsældir og var t.d. þýdd á þýsku. Bókin var svo kvikmynduð árið 1919 á Íslandi og voru nokkrir íslenskir leikarar í þeirri mynd. Þegar fyrri heimsstyrjöldin skellur á fer stíll Gunnars að breytast. Hann gefur út Strönd Lífsins er fjallar um prest að nafni séra Sturla er glatar trúnni og svo Vargur í Véum er fjallar um uppreisnarmann er rís gegn spillingu. 1920 kom út bókin Sælir eru einfaldir og þótti ein besta bók á Norðurlöndunum sem er nokkuð myrk og fögur á sama tíma.

Fjallkirkjan er eitt af meistaraverkum Gunnars og kom hún út í fimm bindum frá 1923-1928. Þessi bók fær innblástur sinn frá ævi Gunnars sjálfs en fjallar um ævi ungs pilts að nafni Uggi Greipsson sem elst upp á Austfjörðum en fer svo ungur til náms í Danmörku. Svartfugl kom svo út árið 1929 or er byggð á þekktu morðmáli á Rauðasandi um 1800. 1931 kemur svo út bókin Vikivaki er blandar saman gamalli þjóðtrú og módernisma. 1939 Kemur út bókin Aðventa sem seldist í flestum eintökum. Bókin fjallar um Benedikt er fer upp á hálendi að vetri til í hríðarbyl að leita af kindum. Gunnar gaf svo út fleiri verk eins og Heiðarharm, Sálumessu og Brimhendu.

Gunnar var tilnefndur til Nóbelsverðlaunanna fjórum sinnum. 1918, 1921 og 1922 en árið 1955 var hann næst því að hljóta verðlaunin en var mælt með því að deila verðlaununum milli Gunnari og Halldóri Laxness. Gunnar var orðinn þekktur rithöfundur í Norðurlöndunum og einn vinsælasti rithöfundur í Danmörku og Þýskalandi. Þýskaland var stórt markaðssvæði fyrir Gunnar og byrjuðu verk hans að birtast árið 1913. Regluleg útgáfa á bókum hans hófst svo árið 1927 og varð hann fljótt mjög vinsæll. Innan þriðja ríkis Þýskalands var hann orðinn vel þekktur og hélt hann marga fyrirlestra á vegum Norræna félagsins þýska (Nordische Gesellschaft) víðs vegar um landið. Árið 1936 var hann gerður að heiðursdoktor við háskólann í Hedelberg og 1937 hlaut hann Heinrich Steffens verðlaunin.

 

Gunnar hittir Adolf Hitler

Árið 1940 fer Gunnar í sína síðustu ferð til Þýskalands fyrir stríðslok. Fór Gunnar á vegum Norræna félagsins þýska (Nordische Gesellschaft). Telja sumir að Gunnar átti að hafa verið þar meðlimur. Gunnar fór um og las upp í 40 borgum. Við lok ferðarinnar hittir Gunnar Hitler, og er sennilega eini Íslendingurinn sem það gerði. Talið er að tilgangur fundarins var að tala máli Finna þar sem Sovétmenn réðust til inngöngu en sumir vilja halda því fram að Gunnar hafi farið einnig til að afla fjár og kynna bækurnar sínar. Var þetta talin mesta svaðilför hans til þessa á miðjum stríðstíma. Samkvæmt heimildum frá Þór Whitehead átti Jón Krabbes sendiráðsritari Íslands í Kaupmannahöfn að hafa hitt Gunnar á heimleið eftir að Norræna félagið þýska hefði boðað Gunnar á fund við Hitler. Hefði fundurinn aðallega verið einræða frá Hitler en Gunnar átti að hafa skotið inn orðum til varnar Finnlands. Hitler hefði brugðist við með því að segja að hann hafi boðið finnum griðasáttmála sem þeir hafi hafnað.

 

Sameinuð Norðurlönd

Gunnar talaði fyrir sameinuð Norðurlönd. Hann taldi að Norðurlöndin stæðu betur að vígi gagnvart stærri ríkjum Evrópu ef þau sameinuðust í eitt ríki. Kemur þessi hugsjón frá 19. aldar skandínavisma. Gunnar hélt marga fyrirlestra fyrir norræna stúdenta á þriðja áratugnum. Margir fyrirlestrarnir eru í bók Gunnars Nordiske Rige sem var gefin út 1928. Hann var fullviss um að stórveldin í Evrópu myndu takast á og ef Norðurlöndin myndu sameinast stæðu þau betur af sér storminn frekar en hver í sínu horni. Orð Gunnars fóru fyrir daufum eyrum valdamanna en ýmis félög stúdenta í Danmörku, Noregi og Svíþjóð slógust við að fá hann til sín með fyrirlestra.

Gunnar kemur frá fundinum við Hitler
Gunnar með fyrirlestur í Þýskalandi

Gunnar bjó í Danmörku frá árinu 1907 en snéri svo aftur til Íslands 1939 eftir að hafa verið 32 ár í burtu. Gunnar byggði svo húsið sitt sama ár á Skriðuklaustri í Fljótsdal sem næst fæðingarstað sínum. Þýski arkitektinn og vinur Gunnars Fritz Höger teiknaði húsið. Gunnar og kona hans Franzisca bjuggu þar í níu ár. Franzisca veiktist og gáfu þau íslenska ríkinu húsið árið 1948 og fluttust þau til Reykjavíkur. Frá 1949-1990 var tilraunastöð í landbúnaði þarna til húsa en frá árinu 2000 hefur Stofnun Gunnars Gunnarsson rekið þarna menningar og fræðasetur tileinkað Gunnari. Skriðuklaustur er skemmtilegur og fræðandi viðkomustaður fyrir þá sem koma þarna við í hinum fallega Fljótsdal. Gunnar gaf svo út sínar síðustu skáldsögur á 6. áratugnum en síðustu ár sín notaði hann til að þýða eigin verk yfir á móðurmálið. Gunnar lést þann 21. nóvember 1975 í Reykjavík og kona hans Franzisca þann 22. október 1976. Eru þau grafin í Viðey.

Skriðuklaustur. Hús Gunnars eftir arkitektinn Fritz Höger.

Gunnar lætur eftir sig áhugaverða og viðburðaríka ævi og stórt safn af ritverkum sem hver ætti að kynna sér. Það má með sanni segja að Gunnar vegur þungt í norrænni ritlist og er ómissandi þáttur í menningu landsins og norðurlandanna.

 

Helstu verk Gunnars Gunnarsonar:

Borgarættin – 1912-1914

Strönd Lífsins – 1917

Vargur í Véum – 1917

Fóstbræður – 1919

Sælir eru einfaldir – 1920

Fjallkirkjan – 1923-1928

Svartfugl – 1929

Vikivaki – 1932

Frá Blindhúsum – 1933

Hvíti Kristur – 1950

Grámann – 1936

Aðventa – 1939

Heiðarharmur – 1940

Sálumessa – 1952

Brimhenda – 1954

Nordiske Rige – 1928 sem eru fyrirlestrar um sameinuð Norðurlönd

 

-RBVÍ

1 ATHUGASEMD

Skilja eftir athugasemd

Vinsamlegast sláðu inn athugasemdina þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafnið þitt hér